Fréttir - Framkvæmdir við nýja íbúðabyggð í Vogum hafnar

Föstudaginn 30. maí tók Birgir Örn Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Voga fyrstu skóflustunguna að nýju íbúðabyggð við Voga, sem kallast Grænuborgarsvæði. Hann notaði við það stórvirkt vinnutæki, þannig að fyrsta skóflustungan var stór, sem er tákn fyrir stórhuga framkvæmdir sem eru að hefjast þarna, en í nýja hverfinu er gert ráð fyrir 500 íbúða byggð og skóla.

Nesbyggð ehf. keypti fyrr á árinu svæðið og ætlar að byggja íbúðahverfið í tveimur áföngum. Í fyrri áfanga verða 250 íbúðir og þar af 50 einbýlishús, 70 íbúðir í rað- og parhúsum og aðrar íbúðir í fjölbýlishúsum.

Ekki hefur verið gerð endanleg áætlun um verklok fyrri áfanga, því miðað við núverandi ástand á markaði má reikna með að hægar verði farið í sakirnar, en síðan fljótlega hafist handa á fullum krafti þegar jafnvægi kemst á markaðinn. Sala á íbúðum hefur þó verið góð að undanförnu þrátt fyrir allt og alltaf eru að seljast íbúðir í þeim húsum sem núna eru á lokastigi í byggingaframkvæmdum.

Bæjarstjórinn í Vogum á Vatnsleysuströnd er þó jafn bjartsýnn og stjórnendur Nesbyggðar ehf. og hann bindur miklar vonir í þetta verkefni, því þegar þessu er lokið mun íbúðabyggð í Vogum verða tvöföld miðað við núverandi stærð.

Hérna má sjá nánar myndir sem teknar voru við þetta tækifæri

31. maí 2008                                        <Til baka>