Fréttir - Ungt fólk kaupir íbúðir

Nesbyggð hefur undanfarið boðið skemmtilegt tilboð á síðustu íbúðunum að Fossabrekku 21 í Ólafsvík, tilboðið felur í sér að íbúðirnar eru afhentar fullbúnar, með öllum húsbúnaði, svo að ekki þarf annað en að flytja inn og setja föt inn í skápana því að allt annað er til staðar. Um síðustu helgi var afhent ný íbúð í húsinu en það var Laufey Guðbjörnsdóttir sem tók við lyklunum úr hendi Sigrúnar Pálsdóttur, Sigrún er dóttir Páls Harðarsonar byggingastjóra Nesbyggðar.

Fjölskylda Laufeyjar er greinilega mjög ánægð með frágang íbúðanna hjá Nesbyggð því að mjög stutt er síðan Ólafur bróðir Laufeyjar festi kaup á samskonar íbúð í sama fjölbýlishúsi.

Eins og flestir vita þá er meðalaldur húsa í Snæfellsbæ orðinn nokkuð hár og því mikils virði að fyrirtæki eins og Nesbyggð sé tilbúið til að byggja nýtt húsnæði og gera þannig ungu fólki kleift að kaupa sína fyrstu eign án þess að hafa áhyggjur af viðhaldskostnaði næstu árin. Ungt fólk í Snæfellsbæ hefur því möguleika á að kaupa sér nýja eign í heimabyggð í stað þess að leita á höfuðborgarsvæðið.

Í samtali við Pál Harðarson kom fram að Nesbyggð ætlar að byggja nýtt fjölbýlishús austan við Fossabrekku 21, gert er ráð fyrir að framkvæmdir við það hefjist í júlí.

Að lokum er vert að benda á að Nesbyggð lánar allt að 20% af eftirstöðvum íbúðar eftir að íbúðalánasjóður hefur lánað 80%, þetta er mikils virði þegar horft er til þess hve erfitt hefur verið að fá fjármagn í bönkum eftir hrun. Viðbótarlán Nesbyggðar ber aðeins 4,5% vexti auk verðtryggingar og eru til allt að 25 ára.

Birt með góðufúslegu leyfi: Bæjarblaðð Jökull í Snæfellsbæ.

21. júni 2010 – PH

21. júní 2010                                        <Til baka>